Hver man ekki eftir þætti á gömlu gufunni sem hét íslenskt mál. "Þættinum hefur borist bréf, hver kannast við orðið "mæra" í merkingunni nammi, salgæti o.s.frv."
Ég heyrði nokkur ný orð í dag sem mér fundust nokkuð sérkennileg og kannaðist ekki við að hafa heyrt áður. Það er ekkert nýtt að mér berist ný orð til eyrna þegar verið er að gera upp báta.
Í dag voru þetta orð eins og; Kollharður, Hnýfilkrappi, Hnýfill, Umgjörð, Stafnlok og Klumpi eða Stuðlappi. Já, þetta eru nokkur góð og gild orð sem eru á þessum bátum og fyrir ykkur sem ekki vitið þá er ég að hugsa um að setja hér inn myndir og sýna ykkur þetta.

Á þessari mynd má sjá hnýfil og hnýfilkrappa.
Hnýfillinn er efsti hluti stefnis að framan eða aftan sem stendur uppúr stefninu. Framhnýfill og afturhnýfill. Þríhyrningslaga stykkið sem er við stefnið heitir
hnýfilkrappi.

Hér sést kollharður og umgjörð.
Kollharður er stykkið sem er ofan á þóftunni og út í síðuna, vinkillinn með boganum eða hvernig ég skýri það út á þessari mynd.
Umgjörð er svo það sem í dag myndi kallast borðstokkurinn. Þarna vildi Hafliði þó meina að gæti verið smá munur á því umgjörð er allt frá ystu spítu til þeirrar innstu. Á myndinni sést þetta vel, nýji ysti listinn+gamla tréið+bilið á milli og endarnir á böndunum+nýji listinn að innan=umgjörð.

Hafliði sagði mér að kubburinn sem settur er á samskeiti innan í bátnum sé kallaður
klampi. Á myndinni sést einn fyrir miðri mynd. Þá sagðist hann hafi heyrt að í Bátalóni hafi
klampinn verið kallað
stuðlappi en hvergi annarsstaðar hafi það verið gert, ekki svo hann vissi til alla vegna.

Stafnlok - Hafliði Aðalsteinsson sagði að hann og Ólafur Gíslason væru ekki sammála um hvað væri stafnlok. Hafliði segir að staflok sé fremsta bandið sem liggur á ská miðað við hin. Ólafur Gíslason segi (að sögn Hafliða) að stafnlok sé: Fjöl sem sett er innan við þetta fremsta band og þá myndast gott hólf sem böndin eru oft geymd í, þessi fjöl sem myndar hólfið sé kallað stafnlok en ekki bandið sjálft. Þarna er smá merkingarmundur á en er einhver þarna úti sem getur sagt hvort er rétt? Vona að þið hafið haft einhverja ánægju af þessu. Sendið mér línu ef þið kannist við þessi orð og þá í hvaða merkingu!
Ég sló þessu upp á netinu (Google) og þetta var niðurstaðan sem þar kom:
stafn·lok. HK. sjómennska. dálítið hallandi, þríhyrnd fjöl í stafni eða skuti báts. stafnlokseyra armur á stafnloki sem það er neglt á við skipshliðina. .
stafn·seta. KVK. sjómennska. stafnlok. .
skar·lot. -s, - HK. sjómennska, sjaldgæft. totulaga rúm undir stafnloki fremst og aftast í bát. .
hnýfil·krappi. KK. sjómennska. lítill þríhyrndur trékubbur fyrir ofan stafnlok á bát, aftan við hnýfilinn.