Ég hef áður sagt frá Helguskúr en ætla að gera það aftur. Að mínu mati er Helguskúr alger gullnáma fyrir áhugamenn um veiðar á öllum sjávardýrum. Þá er þessi skúr mjög svo myndrænn. Eigandi Helguskúrs er Helgi Héðinsson.
Skúrinn lítur eins út og þegar Helgi hætti að róa, ekkert hefur breyst. Skúrinn og Helgi eru orginal. Helgi er þarna á hverjum degi og oft aðrir sjóarar hjá honum. Miklar umræður í gangi og kaffi á könnunni.
Ég vona að þessi skúr fái að vera svona um ókomna framtíð því margt af því sem þarna má finna eru hlutir sem flestir hafa hent í gegnum tíðina. Þarna eru þessir hlutir í sínu rétta umhverfi. Húsavíkurbær á að hafa þennan skúr á aðalskipulagi bæjarins á þessum stað þar sem hann hefur alltaf verið.
Ráðamenn hjá Húsavíkurbæ hafa í gegnum tíðina látið alla gömlu skúrana hverfa einn af öðrum af aðalskipulagi bæjarins. Hins vegar hafa aðrir lagfært nokkra af þessum gömlu skúrum og nota jafnvel sem veitingahús í dag. Gömlu gildin eru að hverfa eitt af öðru og því segi ég enn og aftur, ég vona að ráðamenn Húsavíkur tryggi að Helguskúr fái að standa um ókomna framtíð þar sem hann er núna.

Helguskúr, 19. júlí 2011

Helgi Héðins, 19. júlí 2011

Línubali og stokkuð lína, 20. júlí 2011