Bátadagar á Breiðafirði 2-3 júlí 2011
Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar (FÁBB), sem undanfarin 3 ár hefur gengist fyrir siglingu súðbyrtra trébáta um Breiðafjörð, gengst nú fyrir slíkri bátahátíð dagana 2-3 júlí n.k.. FÁBB hefur súðbyrðinginn í öndvegi og vinnur að verndun hans og kynningu. Einnig stendur félagið að sýningunni "Bátavernd og hlunnindanytjar", sem opnuð var á Reykhólum 1. júní s.l. í samvinnu við Reykhólahrepp og Æðarvé, félag æðarbænda í Austur-Barðastrandasýslu og Dalasýslu.
Að þessu sinni verður fyrirkomulag bátadaga þannig að siglt verður á laugardeginum 2. júlí bæði frá Reykhólum og frá Stykkishólmi í Rauðseyjar og Rúfeyjar. Á sunnudeginum 3. júlí er ráðgert að sigla í Akureyjar og einnig verður sýningin á Reykhólum opin fyrir þátttakendur. Áætlað er að siglt verði frá Stykkishólmi kl.09:00 en frá Reykhólum kl.10:00 og er tímasetning á brottför báta háð veðurspá þessa daga.
Siglingin verður undir stjórn manna sem þekkja vel til aðstæðna við Breiðafjörð og eyjarnar verða skoðaðar í fygld manna sem þekkja þær vel og lýsa staðháttum og sögu þeirra.
Trébátaeigendur!!! komum saman og siglum í nafni bátaverndar og vekjum athygli á okkar málstað . Hvetjum alla til að nýta sér þetta tækifæri til siglingar í fallegu umhverfi. Þess ber að geta að tjaldaðstaða á Reykhólum er mjög góð og miklar endurbætur hafa verið gerðar tjaldsvæði við Gistiheimilið Álftaland þar sem gestir hafa aðgang að eldhúsi og hreinlætisaðstöðu ásamt því að geta skellt sér í nýju heitu pottana. Verslunin Hólakaup stendur að sjálfsögðu fyrir sínu, hún blómstrar í höndum nýrra eigenda hvað varðar vöruúrval og þjónustu.
Á meðfylgjandi yfirlitsmynd má sjá fyrirhugaðar siglingar.
Rauður: Laugardagurinn 2. júlí frá Stykkishólmi og Reykhólum í Rúfeyjar og Rauðseyjar.
Grænn: Sunnudagurinn 3. júlí frá Reykhólum í Akureyjar.
Allir súðbyrðingar eru velkomnir og við viljum hvetja sem flesta til að nýta sér þetta tækifæri til siglingar um þetta fallega umhverfi.
Mjög góð aðstaða fyrir minni báta er bæði á Reykhólum og í Stykkishólmi.
Nánari upplýsingar veita:
Hafliði Aðalsteinsson,
haflidia@centrum.is s: 898 3839
Hjalti Hafþórsson,
artser@simnet.is s: 861 3629
Sigurður Bergsveinsson,
sberg@isholf.is s: 893 9787
Hér má svo sjá hluta þeirra báta sem voru á Bátadögum 2010. Smellið á myndina og þá sjáiði myndir af öllum bátunum sem voru þarna á ferð.

Hluti báta á bátadögum 2010 við Flatey á Breiðafirði.