1260 Ágúst RE 61, netabátur smíðaður 1972 hjá Byggingarfélaginu Bergi hf á Siglufirði úr furu og eik, 15 brúttótonn. Er með Powermarine vél, 108 hestafla. Ágúst var smíðaður fyrir Vilberg Stefánsson á Stöðvarfirði sem átti bátinn í fjögur ár. Fyrri nöfn: Jóhann Pálsson SU 30 en frá 1976 Ágúst RE 61.
Ágúst stendur núna á Ægisgarði og grotnar niður. Hér má sjá tvær myndir sem ég hef tekið af bátnum, önnur í febrúar 2009 og hin í nóvember 2009. Eins og sést á myndunum hefur báturinn verið skafinn en svo hefur ekkert verið gert meira fyrir bátinn, því miður. Vonum að eigandinn taki við sér og klári verkið.
1260 Ágúst RE 61. Grandagarður 28. febrúar 2009
1260 Ágúst RE 61. Grandagarður 8. nóvember 2009
27. mars 2012. Fékk póst um að verið væri að vinna við lagfæringu á Ágústi og hann færi á flot í sumar.
16. apríl 2012. Núverandi eigendur eru Sigurjón og Elmar Sigurðsson en þeir keyptu bátinn í janúar 2012 af fyrirtækinu Manus ehf á Eyrarbakka. Báturinn mun áfram heita Ágúst RE 61. Sigurjón kvað þá ætla að fara á strandveiðar í næsta mánuði og nú væri unnið á fullu í að koma bátnum í stand. Báturinn hefur staðið á landi í 5 ár og hefði ekki mátt standa eitt árið ennþá að sögn Sigurjóns. Það sem þó hafi líklega bjargað bátnum var að málningin var skafin af. Búið er að skipa um eitt borð í skrokknum og gæti þurft að skipta um tvö önnur borð. Þá á að öxuldraga og koma vélinni í gang, en þegar báturinn fór á land fyrir fimm árum þá var vélin í lagi. Hún hefur ekki verið sett í gang síðan en hún snýst. Eitthvað þarf þó að gera áður en hún verður sett í gang, skipta um spíssa og fleira. Sigurjón kvað þá búna að mála nánast að ofan en skrokkurinn væri allur eftir og rekkverkið. Það væri búið að merkja aðra hliðina, Ágúst RE 61, en hin yrði merkt á morgun.
Sigurjón sagði þetta líklega vera einn mest ljósmyndaða bátinn ef ekki þann mest myndaða. Það væru til myndir af honum um allan heim. Það væri ekki sá ferðamaður sem labbaði framhjá Ágústi, þeir stoppa allir og taka myndir af honum. Nú er það spurning hvort fyrirsætan fái sömu athygli þegar búið verður að mála hana:-)
Alla vegna er ég ánægður með að nú er verið að gera bátinn upp og hann fer aftur í notkun. Nú er að drífa sig að mynda bátinn svo hægt sé að sjá breytingarnar.
17.04.2012 kíkti snöggt á Ágúst. Byrjað er að mála hann og strax sér maður breytinguna. Nú verður bara spurningin hvernig báturinn verður á litinn? Fleiri myndir í albúmi. Smellið á myndirnar.
1260 Ágúst RE 61. Grandagarður 17. apríl 2012
19.04.2012.
Nú er liturinn að koma á Ágúst RE 61. Grænn skal hann vera. Allt er vænt sem vel er grænt, stendur einhversstaðar. Sýnist Ágúst koma til meða að líta vel út svona grænn.
Ágúst RE 61, Reykjavík 19. apríl 2012