Spói, Numenius Phaeopus er algengur varpfugl á Íslandi, hann er farfugl. Spóinn er um 40-42 sm. að stærð, 500 gr. að þyngd og vænghafið er um 76-89 sm. Spóinn kemur til landsins í byrjun maí og er farinn í lok ágúst, byrjun september. Spóinn verpir um fjórum eggjum, þau eru brúnleit með dökkum blettum.
Spói er stór vaðfugl, háfættur og rennilegur. Hann er grábrúnn með ljósum fjaðrajöðrum að ofan, á bringu og niður á kvið en annars ljós á kviði og neðan á vængjm. Spóinn er með dökkbrúnan koll og augnrák en ljósa brúnarák og kverk. Hvítur gumpur og neðri hluti baks eru áberandi á flugi. Stél er þverrákótt og vængendar dökkir. Ungfugl er svipaður fullorðnum fugli en goggur styttri.
Goggurinn er grábrúnn að lit, boginn niður á við og einkennir fuglinn mjög. Langir fæturnir eru blágráir og augun eru dökk með ljósum augnhring.
Söngur spóans, vellið, er eitt af einkennishljóðum íslenska sumarsins. Að auki gefur hann frá sér ýmis flauthljóð.
Varpkjörlendi er bæði í þurru og blautu landi. Þéttleikinn er mestur í hálfdeigjum og þar sem mætast votlendi og þurrlendi, en han verpur líka í lyngmóum, grónum haunum, blautum mýrum og hálfgrónum melum og söndum. Hreiðrið er sinuklædd, grunn laut í lágum gróðri, venjulega óhulið.
Algengur á láglendi um land allt en strjáll á hálendinu. Vetrarstöðvarnar eru í V-Afríku sunnan Sahara.

Spói. Álftanes 16. júlí 2007