Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

Færslur: 2013 Janúar

24.01.2013 21:22

Mary

Eftir að hafa fengið upplýsingar um Mary frá Gunnari þá hafði ég samband við Kristbjörn Eydal, en hann þekkir bátinn nokkuð vel. Þessi frásögn er samsuða af því sem þeir sögðu mér.

Mary er smíðuð að Látrum í Aðalvík 1958 af Benedikt Benediktssyni og honum til aðstoðar var Kristbjörn Eydal.  Þeir voru eigendur bátsins og báðir frá Látrum, eða eins og Kristbjörn orðaði það, eiginlega var það Benedikt sem smíðaði bátinn og ég var svona til aðstoðar.  Við smíðuðu bátinn til að skjöktast á, sagði Kristbjörn.  Við smíðuðum bátinn í gömlum skóla á Látum.  Byrjuðum að smíða inni í einni skólastofunni.  Kjölur og stefni voru úr eik en umför úr furu.  Náðum að setja þrjú umför þarna í skólastofunni og þá þurftum við að fara með bátinn út.  Báturinn var settur undir húsvegg við skólann og þar kláruðum við smíðina í misjöfnum veðrum.  Við notuðumst við stóran 40 lítra pott til að geta hitað upp timbrið til að geta beygt það til.  Báturinn var með svigabönd en hoggin bönd undir þóftum. 


Vélin í bátnum var ensk vél, Kristbjörn mundi ekki nafn hennar en taldi að það hafi verið Bræðurnir Ormsson sem hafi selt þessar vélar.  Þessi vél hafði verið við einhverja vatnsdælu, rafstöð.  Svo var einhver tregða komin í dæluna svo við fengum vélina.  Hún gerð upp og gerð klár.  Við fundum kúplingu sem var í einum af sjávarhúsunum við Látra.  Vélsmiður var fengin til að útbúa öxul og stefnisrör.  Báturinn gekk 6 mílur.  Þessi vél var mikill bensínhákur enda gerð til að ganga á fullum snúningi við rafstöð.


Gunnar bendir á að búsetu hafi verið lokið á Aðalvík á þessum tíma sem báturinn var smíðaður.  Þrátt fyrir það iðaði víkin af lífi því verið var að byggja radarstöðina á Straumnesfjalli og bækistöðvar verktakanna voru á Látrum.


Benedikt og Kristbjörn fara svo með bátinn á Ísafjörð um 1960 og eiga hann þá í ein tvö-þrjú ár en selja bátinn þá manni að nafni Sigurður.  Sigurður fékk einhvern mann á Ísafirði til að smíða hoggin bönd í allan bátinn.  Þannig er það í dag, báturinn er með hoggin bönd.  Sigurður átti bátinn í einhvern tíma áður en hann seldi bátinn.  Ekki vitað hverjum. 


Kristbjörn sagði að gaman gæti veri að uppljóstra því hvernig nafn bátsins væri til komið.  En þannig var að í mötuneitinu vann stúlka að nafni Mary, stórglæsileg stúlka.  Allir menn voru skotnir í henni og svo var einnig um Benedikt, en ég var orðinn giftur maður á þessum tíma.  Báturinn fékk því nafnið Mary.  Ég held að Mary sé jafnvel enn á lífi, sagði Kristbjörn og hló.


Gunnar bætir við:  Einhvern tíma kringum 1962-3 fékk pabbi bátinn lánaðan (pabbi vann samtíða Bena og Kristbirni við stöðvarbygginguna), geymdi bátinn í fjörunni neðan við Stakkanes við Skutulsfjörð og notaði kvöldin til að skjótast ásamt Jóhannesi bróður sínum og okkur gemlingunum út í Sund með veiðistangir. Ekki voru nú björgunarvestin þá og minn ekki nema 5-6 ára. Ég man að Mary var með lítilli bensínvél sem var erfið að því leytinu að hún var mjög erfið í gang heit og einhverju sinni þegar drepið var á henni úti við baujurnar í sundunum vildi hún ekki í gang aftur með neinu móti. Þeir þurftu að róa henni heim, pabbi og Jói og var víst upplit á kvenfólkinu þegar ungunum var skilað heim í ból löngu eftir miðnætti. Þetta hefur verið á hásumri því ég man að það var bjart allan tímann.


Í dag er báturinn í Bátastöðinni og er anski þreyttur.  Agnar Jónsson hefur mælt bátinn upp og teiknað.  Helstu mál á bátnum eru:  Lengd, 530 sm., breidd, 185 sm., dýpt, 60 sm., sjö umför. Meiningin er svo að smíða nýjan bát eins og Mary.  Kristbjörn kvað þá hafa sótt bátinn í september 2012 en hann kvaðst ekki vita hvar þeim muni smíða bátinn.  Báturinn hafði verið í geymslu hjá Krisjáni Jónssyni í Seljanesi, búin að liggja þar í 20 ár.  Kristbjörn kvað það hefði mátt vera búið að sækja bátinn fyrir minnst 10 árum síðan.  Það var hins vegar ekki gert og því er þetta svona.


Kristbjörn átt von á að hann og synir hans þrír myndu sjá um verkið, Guðmundur, Friðþór og Halldór Páll.  Halldór Páll er m.a. húsasmiður og ætli hann stjórni ekki verkinu svolítið.


Heimildir:

Munnlegar upplýsingar frá Kristbirni Eydal, eiganda Mary.

Skriflegar upplýsingar frá Gunnar Th.




Mary, smíðaður á Látrum í Aðalvík.  Bátastöðin 19. janúar 2013

19.01.2013 21:31

Ingimundarbátur

Núverandi eigendur bátsins eru þeir feðgar Birkir Þór Guðmundsson og Guðmundur Björn Birkisson og ætla þeir að gera bátinn upp og eru þegar byrjaðir.  Þeir fóru á bátanámskeið til að læra undirstöðuatriðin í bátasmíði hjá þeim Hafliða Aðalsteinssyni og Eggerti Björnssyni.  

Ég mun svo fylgjast með lagfæringunni á bátnum eftir því sem ég get.  Fylgjast má með uppgerð bátsins hér á þessari vefsíðu: http://hraun2.is/ 
Á þessari síðu eru þeir með vídeó þar þeir settu saman um lagfæringarnar.  Reikna með fleiri svoleiðis svo endilega kíkið á síðuna þeirra.

Frásögn sú sem Guðmundur Valdimarsson sagði mér, er hann taldi sig vita hvaða bátur þetta væri reyndist ekki rétt.  Birkir las hana yfir og kvaðst nánast vera komin með sögu þessa báts og það passaði ekki við sögu Guðmundar.  Hér kemur það sem Birkir sagði mér og þegar sagan verið öll komin þá mun ég uppfæra söguna.

Birkir sagði að þeir vissu að báturinn hafi verið í eigu grásleppukarla á Álftanesi.  Af Álftnesingum hafi þeir fengið staðfestingu að Sigurður Egilsson skipasmiður í Vogum hafi átt bátinn í 30 ár.  Sigurður lagfærði bátinn talsvert.  Setti í hann svigbönd og fleira.  Á eftir Sigurði eru tveir eigendur áður en hann komst í eigu þeirra feðga.  Í bátnum er Albin mótor.  Báturinn er udnir 6 metrum og því aldrei skráður.  Meira síðar............................

03.03.2011
Sá þennan bát í Bátastöðinni.  Búið er að skipta um framstefni og kjöl.  Talsvert verk fyrir höndum sýnist mér.  Meira síðar.









Þessi Albin vél fer í bátinn.


28.01.2012
Búið er að setja í bátinn ný bönd.  Finnst þau veigalítil en þau eru svipuð og þau sem fyrir eru.  Persónulega finnst mér þau veigalítil en hvað veit ég um það.  Hef komið oft í Bátastöðina og þá hefur lítið verið að gerast með þennan bát.  Nú er eitthvað að gerast og vonandi heldur það áfram.



19. janúar 2013
Ég hitti þá feðga, Guðmund og Birki í dag en ég var að taka myndir þegar þeir komu.  Ég hafði þá ekki myndað bátinn í talsverðan tíma.  Nú eru þeir á fullu að gera við.  Veit að þeir skruppu á eitt námskeið um bátasmíðar áður en þeir birjuðu á lagfæringunum.  Búnir að setja bátinn upp á palla svo þeir hafi betri vinnuaðstöðu.  Þá er búið að rífa nokkur umför af botni bátsins.  Afturstefnið farið af og veri að smíða nýtt.


Nýtt afturstefni á borðinu, gamla stendur og báturinn á pöllunum.


Birkir heflar niður nýja afturstefnið meðan gamla stendur og fylgist með að allt sé í lagi.


Búnir að setja skapalón í allan bátinn.


Gömul borð úr bátnum og gamla stýrið.  19. janúar 2013

29. janúar 2013
Leit inn í Bátastöðina í dag.  Hitti á Guðmund og Birki en þeir eru að vinna á fullu við að gera bátinn upp.  Birkir sagði mér að þeir hafi litið inn í Bátastöðina eitt sinn og voru að leita að bát.  Þegar Birkir sá þennan bát þá fannst honum þetta vera báturinn sem þeir ættur að fá.  Þeir náðu samkomulagi við eigandann, sem var búinn að skipta um framstefni, hluta af kili og setja eitthvað af böndum.  Þeir keyptu bátinn á 80.000 krónur en það var sú upphæð sem búið var að eyða í efniskostnað í bátinn.  Eins og áður hefur verið sagt þá skruppu þeir feðgar á námskeið í bátasmíði og hófust svo handa við viðgerðina.  Í fyrstu rifu þeir allt í burtu sem búið var að gera og meira til.
Í dag sá ég að þeir voru að vinna í kjalböndunum og gera þau klár og ætluðu að koma þeim undir í kvöld.  Þá var Guðmundur að sníða til sauminn.  Þá ákvað ég að mynda helstu samsetningar á stefnum og kilinum.


Samskeiti þar sem kjöldur og stefni koma saman með styrkingu.  29. janúar 2013


Samskeiti á kilinum.  29. janúar 2013


Afturstefni og kjölur koma saman.  29. janúar 2013


Guðmundur gerir sauminn klárann.  29. janúar 2013

05. febrúar 2013
Birkir var einn í Bátastöðinni þegar ég leit inn.  Hann var að vinna við kjalsíðurnar, en hluti þeirra var kominn upp en það vantaði á endann að aftan.  Hann mældi, slípaði, mældi, slípaði o.s.frv.  Greinilegt að það er vandað til verksins, enda vitum við að ef það er ekki gert er óvíst að báturinn fljóti :-).  Verkið gengur þokkalega áfram.  Þegar kjalsíðurnar verða komnar á og fyrsta umfarið þá fer að ganga hraðar.  Fleiri myndir í albúminu.


Kjalsíður komnar á að hluta.  05. febrúar 2013


Birkir mælir. 05. febrúar 2013


Birkir notar slípirokk til að vinna kjalsíðuna niður.  05. febrúar 2013


Birkir mælir meira.  05. febrúar 2013

05. mars 2013
Hitti á þá feðga í Bátastöðinni, en þar var talsverður kuldi enda -7 gráður úti.  Kuldinn hélt þó ekki aftur af þeim við uppgerðina á bátnum.  Nú eru þeir búnir að setja fjögur umför og voru að byrja að setja það fimmta.  Þetta virðist ganga vel hjá strákunum og lítur vel út.  Birkir kvaðst hafa fengið lærimeistarana, Hafliða og Eggert í heimsókn og þeir hafi sagt að hann mætti halda áfram með verkið.  Ég myndi halda að það væri þar með búið að útskrifa þá.  Fleiri fréttir eru að nú þarf að tæma húsið fyrir 1. maí minnir mig að Birkir hafi sagt en eigandinn ætlar að nota húsið í eitthvað annað.  Birkir hélt að það væri í lagi þeirra vegna því þeir yrðu líklega búnir fyrir 1. maí.  Varðandi sögu bátsins þá á eftir að bera saman upplýsingar sem þeir feðgar hafa fengið og þær sem ég hef fengið, hvort þetta smelli saman, kemur í ljós síðar.  Fleiri myndir í albúmi.


Guðmundur stígur stríðsdans við að brjóta ísinn í flöskunni.  Gufa stígur upp af hitastokknum.


Hluti af fimmta umfari komið í hitastokkinn.  Bátastöðin 05. mars 2013


Fjórða umfarið komið á.  Bátastöðin 05. mars 2013


Feðgar vinna við bátinn.  Bátastöðina 05. mars 2013

20.04.2013
Kíkti inn í Bátastöðina.  Bátur þeirra feðga hefur aldeilid tekið breytingum frá því ég sá hann síðast.  Nú eru öll umförðin komin á sinn stað og þeir byrjaðir á böndunum inn í bátinn.  Lítur mjög vel út og ekki hægt að sjá annað en að vel sé vandað til verksins.
Fyrstu tvær myndirnar fékk ég að láni frá þeim feðgum, af síðunni hraun2.is en þar er hægt að fylgjast með uppgerð bátsins. 






Svona lítur báturinn út.  Bátastöðin 20. apríl 2013


Vinna hafin við böndin.  Bátastöðin 20. apríl 2013











11.01.2013 21:24

Gæskan SH ex Sóley ÞH

5443 Gæskan SH 160 ex Sóley ÞH 28

Smíðaður af Baldri Pálssyni skipasmið á Húsavík 1972.  4,10 brl. Fura og eik.  Afturbyggður opinn súðbyrgðingur með lúkar.  Vél 8 ha. Kubota.
Báturinn var smíðaður fyrir Gunnar Jónsson og Jóhann Gunnarsson Húsavík, sem áttu bátinn í fjögur ár.  Allmiklar breytingar hafa verið gerðar á bátnum í tímanna rás og er hann nú frambyggður en ekki afturbyggður eins og í upphafi var.
Ekki er vitað hvenær þessi breyting var framkvæmd né hver verkið vann.
Frá árinu 1976 hét báturinn Hugi NS 76, Bakkafirði.
Frá 1978 Aðalsteinn Hannesson AK 35, Akranesi.
Frá 2010 Gæskan AK 35, Akranesi.
Frá árinu 2012 heitir báturinn Gæskan SH 160, Grundarfirði og er Pétur Vilbergur Georgsson skráður eiganid hans.  Báturinn var á strandveiðum sumarið 2012 en á haustmánuðum var hann auglýstur til sölu.  Hvort kaupandi finnst eða hvert báturinn kann að fara er ekki vitað en skráð þá í ljós kemur.

Heimildir:  aba.is, http://aba.is/?modID=1&id=65&vId=106 

Ég var á ferðinni í Grundarfirði í maí 2012 og smellti þá nokkrum myndum af Gæskunni við bryggju.


Gæskan SH 160 ex Sóley ÞH 28.  Gundarfjörður 19. maí 2012

06.01.2013 11:22

Munstur

Ég hef reglulega sett inn myndir sem ég hef gaman af.  Ég tók eina svona mynd í Stykkishólmi um jólin og vil leyfa ykkur að sjá.  Svona er þegar náttúran leikur sér af mannvirkjum.  En þetta er bryggjugólfið í Stykkishólmi fyrir ykkur sem ekki áttið ykkur á því.


Stykkishólmur 27. desember 2012

05.01.2013 16:30

Bátur slitnar upp við Flatey

Eins og fram hefur komið þá var ég í Flatey á Breiðafirði um áramótin og í brjálaða veðrinu sem gerði 29. des. 2012.  Litlar skemmdir urðu í eyjunni en þó smá.  Ég hef þegar sett inn mynd af mastrinu sem seig niður en brotnaði ekki sem betur fer.  Ég hef hins vegar ekki sett inn myndir af fjárbátnum hans Hafsteins bónda sem slitnaði af legunni og rak upp í Hafnarey og skorðaðist þar.  Við skoðun á myndum má sjá að það eru einhverjar skemmdir á bátnum.  Hér koma tvær myndir fyrir ykkur.


Hafnarey, örin vísar á bátinn, 30. desember 2012


Fjárbáturinn hans Hafsteins, 30. desember 2012

03.01.2013 20:44

Flatey um áramótin

Við fjölskyldan vorum í Flatey um áramótin.  Um miðnættið þá fóru flestir í Flatey að kirkjunni og þar var skotið upp flugeldum og sungið.


Elín Hanna, Halla Dís og Elfa Dögg við Flateyjarkirkju 31. desember 2012


Flugeldum skotið á loft í Flatey.


Meiri flugeldar í Flatey.

03.01.2013 20:34

Jóla-Kári

Var um jólin í Stykkishólmi.  Rak augun í Kára þar sem hann skartaði jólaseríu.  Fannst hann eiga fullan rétt á að koma hér fyrir augu ykkar þó birtan í myndinni sé nokkuð köld.  


Kári með jólaseríu.  Stykkishólmur 27. desember 2012
  • 1

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 68
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 444
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 324742
Samtals gestir: 31066
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 04:35:15