Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

26.05.2013 21:35

Kári, Skáleyjum

Kári frá Skáleyjum

23. október 2010
var ég staddur niður við Hvaleyrarlón eins og svo oft áður.  Ég hafði m.a. rekið augun í bát sem ég hafði myndað í Flatey á Breiðafirði.  Þetta var Bjargfýlingur.  Ég var að taka myndir af honum þarna sem hann stóð og kemur þá maður keyrandi sem ég vissi smá deili á.  Þetta var Ólafur A. Gíslason, annar eigandinn af Bjargfýlingi.
Við ræddum málin í smá tíma þarna um báta og ég sagði honum frá áhuga minum fyrir að mynda þessa gömlu báta og fá sögu þeirra.  Ólafur kvaðst þá vera með einn inni í húsi og bauð mér inn.

Ólafur sagði þessa trillu heita Kára og væri hún úr Skáleyjum.  Hann fræddi mig aðeins um sögu Kára en ekki náði ég henni allri en ég mun rukka Ólaf um söguna. 


Eftirfarandi upplýsignar eru úr bókinni Íslensk skip - bátar eftir Jón Björnsson. 
Kári var smíðaður af Valdimar Ólafssyni í Hvallátrum 1930 úr eik og furu.  2,5 brl. með 7,5 ha. Skandiavél.  Eigandi var Hafliði Pétursson Skáleyjum frá 1930.  1932 eignast Gísli E. Jóhannsson og Sveinbjörn Daníelsson Skáleyjum bátinn en frá 1939 var Gísli einn eigandi hans.  1952 var sett í bátinn 8 ha. Lister vél og 1971 19,5 ha. Lister vél.  Frá 1984 eru eigendur bátsins Jóhannes Geir Gíslason og Eysteinn Gíslason Skáleyjum og þar er báturinn 1996.

Nú er báturinn í Hafarfirði í lagfæringu og sér Ólafur Gíslason um lagfæringarnar.  Þið getið fylgst með þeim hér fyrir neðan.


Kári, Hafnarfjörður 23. október 2010

23. október 2010
Ef ég reyni að lýsa því sem ég sá þarna.  Gömul trilla sem greinilega var í viðgerð.  Búið var að hreinsa alla málningu af trillunni.  Það vantaði tvær borðaraðir í trilluna en búið var að setja fimm nýjar borðaraðir í botn trillunnar.  Búið var að tjarga neðstu þrjár borðaraðirnar.  Lyktin þarna inni var sambland af tjöru- og timburlikt.  Þó plássið væri ekki mikið þarna inni þá var það nóg til að hægt væri að hringganga trilluna.  Búið var að skipta um afturstefnið (ef það kallast það).  Þegar ég kíkti ofan í trilluna sá ég að búið var að fjarlægja vélina úr bátnum.  Þá sá ég að það hafa verið settar styrkingar í botninn til að halda trillunni saman meðan unnið væri við lagfæringarnar.  Stífur voru frá borðstokkum og upp í loft til að halda trillunni í réttum skorðum.  Þá er kominn nýr botn í bátinn eins og áður segir.
Ýmist tæki og tól eru þarna til að vinna verkið.  Í suðausturhorni skúrsins var hitastokkur, til að hita upp borðin svo hægt sé að sveigja þau til án þess að þau brotni. 


Hitastokkurinn til hægri á myndinni, 10. desember 2010

Hér á eftir fer svo viðgerðarsagan eins og hún kemur mér fyrir sjónir og nokkrar myndir sem fylgja sögunni.  Allar myndir sem ég tek eru síðan í myndaalbúmi Kára.

06. nóvember 2010
Ég kíkti á endursmíði Kára í dag til að sjá hvernig gengi og tók myndir.  Ólafur var ekki einn í þetta skipti heldur voru hjá honum þeir Valdimar Jónsson og Hafliði Aðalsteinsson.  Held ég halli ekki á neinn með að kalla þessa menn mikla spekinga.  Ég var þarna í um 2 1/2 klst. og það "vall" upp úr þeim fróðleikurinn.  Ég hafði mjög gaman af því í að ræða við þá og heyra hvað væri framundan í bátageiranum.  Ég vil þakka þessum heiðursmönnum fyrir ánægjulega samverustund.
Það helsta af endurbótum Kára er að Ólafur vinnur nú í sjötta umfari, er að festa og hnoða það.  Eins og sjá má á þessari mynd þá eru þvingur og borvélar á lofti.  Lítið við þetta að bæta.


Ólafur festir sjötta umfarið, 06. nóvember 2010

14. nóvember 2010
Kíkti á Kára og Ólaf, tók myndir.  Sjöunda umfar komið á sinn stað og búið að fjarlægja gamla áttunda umfarið.  Þá er jafnóðum fyllt í gömul göt til að hægt sé að festa eitthvað í gamla tréverkið.  Eins og sjá má þá eru trétappar reknir inn í götin og límd.  Tapparnir síðan skornir burtu og þá er búið að fylla vel uppí götin.  Ekki er komið á hreint hvort hægt sé að nota eitthvað af gömlu borðunum.  Tvö efstu umförin, tíunda og ellefta, eru upprunaleg hafi ég skilið Ólaf rétt.  Ólafur hefur áhuga fyrir að nota eitthvað af þessu gamla til að varðveita sálina.  Já, gamlir sjóarar eru með ákveðna hjátrú, ekki slæmt.


Fyllt í gömul göt, 14. nóvember 2010

20. nóvember 2010
Stutt heimsókn.  Ólafur er að klára að hnoða sjöunda umfarið.  Á myndinni hér má sjá sjöunda umfarið komið á sinn stað.  Ég var búinn að sjá að það eru nokkrar skemmdir á 10. og 11. umfari. Þegar ég spurði Ólaf hvort hann þyrfti að skipta um öll umförin vildi hann meina að það væri hugsanlegt að hann gæti notast við eitthvað af 10. og 11. umfari því skemmdir á þeim eru of miklar til að hægt sé að nota þau í heilu lagi.  
Ef þið skoðið þessa mynd þá sést vel að nákvæmnin er í fyrirrúmi, ekki að sjá að skekkja sé í bátnum, allt stenst á.


Sjöunda umfarið komið á sinn stað, 20. nóvember 2010

04. desember 2010
Kíkti á endursmíðina.  Var ekki einn á ferð, dró tengdaföður minn, Einar Steinþórsson með.  Hafði ekki myndavélina meðferðis því miður. Það helsta er að Ólafur er kominn í áttunda umfar.  Ólafur er að hnoða hana og fella saman.  Einar vildi vita hvort Ólafur væri einn við þetta verk og hvernig hann bæri sig þá að við að hnoða þetta?  Ólafur dró fram ansi flott verkfæri, hvað það kallast veit ég ekki, en ég kalla það bara "Viðhald".  Þetta viðhald er þannig uppbyggt, stutta lýsingin, að þetta er eins og þvinga með áföstum sleggjupung.  Ólafur festir þetta og lætur sleggjupunginn vera við naglahausinn.  Meðan hann hnoðar svo að innanverðu þá lemur sleggjupungurinn á mógi.  Þarf að ná mynd af þessu verkfæri til gamans.


Ólafur hnoðar, 20. nóvember 2010

10. desember 2010
Kíkti á fræmkvæmdirnar og tók myndir.  Ólafur er búinn með 8. umfarið.  Nú er hann byrjaður að skipta um böndin í bátnum, þ.e. þau sem þarf að skipta um.  Sá eitt bandið sem Ólafur er að vinna í og það fellur eins og flís í r....  Þó ég sé ekki fagmaður þá tel ég mig þó geta sagt að þarna er unnið af fagmennsku.  Vandvirknin er í fyrirrúmi og ekki leiðinlegt að geta fylgst með þessu og fá leyfi til að festa þetta á mynd.  Það eru forréttindi að fá að fylgjast með endurbótunum.


Eitt bandið sem er í smíðum, fellur eins og flís í r..., 10. desember 2010

04. janúar 2011
Hitti á Ólaf þar sem hann var að líta á Kára.  Ólafur kvaðst lítið hafa gert síðan síðast. 
Ég sá samt strax að hann var búinn að smíða fleiri bönd í bátinn þó hann væri ekki búinn að festa þau.  Þá notaði ég tækifærið og fékk að mynda "þvingusleggjupunginn" sem áður hefur verið minnst á.  Ég sá að á gólfinu var bleyta svo ég spurði mjög spekingslega hvort ekki þyrfti að vökva bátinn?  Jú, þess þyrfti, sérstaklega gamla hlutann.  Sko mig, þetta sá ég, að vísu var gólfið í skúrnum blautt svo ég hefði nú ekki þurft að spurja að þessu.  Set hér tvær myndir, eina sem sýnir aðeins böndin sem búið er að sníða til og sjá má þarna hvernig gamalt og nýtt falla saman.  Þá er þarna mynd af "þvingusleggjupungnum", fleiri myndir í albúminu sem sýna m.a. hvernig þetta tæki er notað.  Nú brestur mynni mitt því Ólafur talaði um, hvort það átti að vera Aðalsteinn sem smíðaði þetta eftir mynni en hann hafði séð svona tæki í Keflavík held ég.  Ólafur leiðréttir mig ef þetta er rangt.  Þarf að muna eftir minnisbókinni þegar ég fer þarna, því ekkert er segulbandið:-)  Bætti við þriðju myndinni þar sem Ólafur var búinn að setja tækið góða upp og heldur sleggjupungnum frá.


Hluti af þeim böndum sem Ólafur er búinn að sníða til.  04. janúar 2011


"Þvingusleggjupungurinn".  04. janúar 2011


Þegar slegið er að innanverðu þá fer sleggjupungurinn frá og lemur síðan á móti.  04. janúar 2011

29. janúar 2011
Kíkti á viðgerðina á Kára.  Tel mig hafa verið nokkuð heppinn með að ásamt Ólafi var bróðir hans, Jóhannes úr Skáleyjum honum til aðstoðar.  Þar sem nokkuð er síðan ég kom síðast þá hafa orðið nokkrar breygingar.  Ólafur er búinn að rífa 10. umfarið og setja upp það 9.  Var að hnoða laska á samskeitin.  Ólafur kvað sagðist hafa þurft að skipta út 10. umfarinu þar sem það hafi verið mikið skemmt.  Það hafi komið í ljós að 10.umfarið hafi verið upprunalegt nema fremsta fjölin stjórnborðsmegin, hún hafi verið nýrri.  Umfar 11 er líklega upprunalegt en það gæti þurft að bæta það aðeins, á eftir að koma endanlega í ljós.  Tók talsvert af myndum af viðgerðunum og jafnframt af vinnuþjörkunum báðum.


9. umfar komið á, 10. hefur verið rifið niður.  Hafnarfjörður 29. janúar 2011


Ólafur vinnur við að setja á samskeitin.  Hafnarfjörður 29. janúar 2011


Bræður vinna.  Hafnarfjörður 29. janúar 2011

07. febrúar 2011
Þegar ég leit við hjá Ólafi voru Jóhannes og Hafliði Aðalsteinsson þar.  Ég bættist í hópinn til að trufla eins og ég mest gat.  Helstu breytingar sem ég sá frá því síðast eru:  Búið er að rífa hluta af 11. umfari, n.t.t. fremstu og öftustu borðin bæði á stjórnborða og bakborða.  Miðjan í 11. umfari er upprunalegt og verður það notað áfram, eða eins og Ólafur sagði, ég skildi sálina eftir í bátnum.  Þá var búið að setja upp hluta af 10. umfari.  Einnig var búið að vinna í fleiri böndum.
Nú fannst mér vera að koma svona eðlilegt bátslag á bátinn þó enn eigi eftir að festa smávegis af 10 umfari og hluta af 11 umfari líka.  Ólafur baðst undan því að það yrðu teknar myndir af honum við að vinna og ég tók tillit til þess NÚNA, en hvort hann sleppur svona vel næst kemur í ljós.


Hér má sjá að 10. umfarið er komið á sinn stað en fremsta fjölin í 11. umfarinu farið.
Hafnarfjörður 7. febrúar 2011


Bakborðshliðin að verða klár.  Hafnarfjörður 7. febrúar 2011


Myndin tekin frá stefninu og afturúr.  Hafnarfjörður 7. febrúar 2011

23. febrúar 2011
Leit inn hjá Ólafi og Kára.  Ólafur er að skipta um bönd í Kára og því lítið að sjá.  Hins vegar var Ólafur kominn með annan bát, mikið minni.  Ég hafði orð á að þetta væri björgunarbátur fyrir Kára.
Kári var eiginlega kominn út í horn.  Hér má sjá hvernig þetta leit út í dag. 


Kári úti í horni.  Hafnafjörður 23. febrúar 2011

21. mars 2011
Lét loksins verða af því að kíkja á Ólaf og Kára.  Ólafur kvaðst nú hafa verið frekar óduglegur við að vinna í Kára upp á síðakastið.  Hann kvaðst aðallega vera að skipta um bönd núna og því lítið að sjá að hafi eitthvað gengið. 
Ég sá að Ólafur var búinn að sníða til talsvert af nýjum böndum, sumt hafði hann þegar fest annað var laust.  Ég sá að sum böndin voru úr eik og önnur úr furu.  Ólafur var einmitt að vinna við eitt band.  Hann sagaði, mældi, sagaði meira og mældi meira, snyrti aðeins og mældi aftur o.s.frv.  Vandvirknin var í fyrirrúmi sýndist mér.  En það er nú svo að þessi vinna sem lítið fer fyrir í heilum bát skiptir einna mestu máli.  En þótt lítið virðist ganga þá sá ég nú talsverðar breytingar á böndum í bátnum.


Ólafur mátar eitt bandið, mælir, sagar, mælir, sagar o.s.frv.


Hér er búið að stilla upp böndunum. Hafnafjörður 21. mars 2011.


31. mars 2011
Í dag þegar ég kíkti á Kára sá ég að breyting hafði orðið.  Nú er Ólafur búinn að setja sjólínuna og Kári því farinn að taka á sig meiri mynd.  Þó þetta verk sé ekki mikið (að sögn Ólafs) þá er þetta talsverð útlitsbreyting.  Ólafur vildi nú gera lítið úr þessu og sagðist ekkert vera búinn að gera síðan síðast annað en setja sjólínuna.  Nú er það ykkar að dæma, er einhver breyting?


Hér má sjá hvernig sjólínan kemur að afturstefninu, Hafnarfjörður 31. mars 2011

11. apríl 2011
Þegar ég leit inn í skúrinn til Ólafs sá ég strax að Kári hafði verið settur á rétta kjöl aftur.  Ólafur sagðist lítið hafa unnið í Kára upp á síðkastið þar sem hann hafi veri að róa.  Þó sagðist Ólafur vera að vinna í að festa böndin inn í bátinn.  Engar myndir teknar í þetta skiptið.

10. desember 2011
Þá kíkti ég loksins aftur til Ólafs og Kára.  Mér sýndist þeir félagar vera í góðum gír.  Ólafur er rétt að byrja aftur að vinna við Kára en hann var á sjónum í allt sumar.  Áður en hann fór á sjóinn þá grunnaði hann Kára allan og því talsverð breyting á útliti Kára þegar ég sá hann núna.  Þó breytingin sé talsverð fyrir augað þá hafa aðrar breytingar gengið hægar.  Ólafur er að skipa um bönd á núna.
Eitt af því sem ég sé að búið er að gera er að skipta út efsta umfarinu, öllu nema miðjunni beggja vegna.  Það eru upprunaleg borð og eiga að halda sálinni í Kára.  Hvað sem öðru líður þá sýnist mér Kári taka sig vel út.
Nú mun ég kíkja og fylgjast með fyrst Ólafur er komin af stað aftur.  Ég spurði hvenær verkinu ætti að ljúka og svarið sem ég fékk var eitthvað á þessa leið:  Það er pressa um að klára fyrir næstu bátadaga.  Það gæti alveg gengið ef maður getur haldið sig vel að verki.


Kári tekur sig vel út svona grunnaður, 10. desember 2011


Miðborðin á efsta umfarinu eru upprunaleg, 10. desember 2011


Verið að skipta úr böndum, gömlu böndin má sjá uppá borðunum, 10. desember 2011

19. janúar 2012
Leit inn hjá Ólafi og Kára.  Ég sá að Ólafur var búinn með talsvert mikið af böndum inní bátinn og eins og hann sagði sjálfur, ég er að klára að smíða böndin en á eftir að hnoða þau.  Þá er Ólafur að byrja á "listaverkinu" þ.e. að setja lista undir borðstokkinn.  Má ekki kalla það listaverk.


Böndin að verða klár.  19. janúar 2012


Böndin að verða klár.  19. janúar 2012


Ólafur kíkir eftir listanum.  19. janúar 2012


10. mars 2012

Leit við og tók nokkrar myndir hjá Ólafi Gísla og Skáleyjar-Kára.  Eins og Ólafur benti mér á þá sjást litlar breytingar hjá honum.  Verkið sem hann er að vinna er seinunnið, festa bönd og tjarga undir öll böndin.  Mörg handtök sem þarna eru unnin.  En þó er alltaf eitthvað sem hefur verið gert frá því ég var síðast.  Listi undir borðstokknum, veit ekki hvað hann er kallaður, er kominn á sinn stað en Ólafur var að vinna við þennan lista síðast þegar ég myndaði síðast.  Þá var hann að smíða bönd líka og festa bönd.  


Búinn að tjarga og þá er að setja bandið á sinn stað

Svo er að negla og hnoða

Þessi bönd eru öll orðin klár, 10. mars 2012

24. október 2012
Þegar ég kíkti inn hjá Ólafi til að líta á framkvæmdirnar á Kára sá ég að borstokkarnir voru að verða klárir. Böndin virðast öll kominn á sinn stað.  Vélin ekki komin niður né vélarhúsið.  
Ólafur segir tréverkið nánast búið þ.e.a.s. skrokkurinn.  Það er þó talsvert eftir t.d. málun, setja vélina niður og smíða vélarhúsið. Ólafur er að klára borðstokkana núna og fannst mér á honum að nú yrði stutt í að hann káraði Kára.  Nú hefði hann góðan tíma. 


Tréverkið á Kára að klárast.  Hafnarfjörður 24. október 2012


Tréverkinu fer að ljúka.  Hafnarfjörður 24. október 2012


Ólafur veltir fyrir sér næstu handtökum.  Hafnarfjörður 24. október 2012

12. janúar 2013
Kíkti við hjá Ólafi.  Tréverkinu á skrokknum lokið sýndist mér og vélin var komin á sinn stað.  Vélin skveruð og flott. Búið að setja í gang og allt virðist vera í lagi.  Þá er búið að grunna allt tréverkið.  Ólafur sagði að það hafi nú lítið verið unnið frá því ég hafi komið síðast.  Ekki gat ég séð það því vélin var komin í Kára.  Síðasta verk Ólafs var að setja öxulinn.  Sá að þarna hafði Ólafur þurft að grafa og sníða til.  Næstu verk er smá frágangur að smíða húsið utan um vélina.  Ég held að það sé í raun ekki mikið eftir hjá Ólafi, snýst bara um hvaða tíma hann hefur.  Það hljómar ekki mikið að segja að það eigi bara eftir að smíða húsið utan um vélina og svo smá frágangur, þó frágangurinn geti verið tímafrekur svo er auðvitað eftir að mála bátinn.


Vélin kominn á sinn stað.  12. janúar 2013


Síðasta verk sem unnið var.  12. janúar 2013


Öxullinn kominn á sinn stað, þó ekki búið að festa.  12. janúar 2013

19. janúar 2013
Í dag sagði Ólafur að hann hafi lítið gert síðan síðast.  Ég sá þó að hann hafði sett plittana í svona til að sjá hvernig þetta liti út.  Ég hafði orð á að Kári væri að verða ballfær.  Þá er Ólafur búinn að vinna betur í afturkilinum við skrúfuna, til að virki rétt á sjónum.  Þá eru fleiri myndir af Lister vélinni sem er komin í bátinn, stýrinu og gamla afturkilinum.


Dansgólfið í Kára tilbúið.  19. janúar 2013


Fínisering.  19. janúar 2013


Kælirörið fyrir öxulinn.  19. janúar 2013


Stýrið. 19. janúar 2013

28. janúar 2013
Ólafur og Kári frá Skáleyjum litu vel út í dag.  Kári sat hinn spakasti og leyfði Ólafi að dúlla við sig.  Ólafur er að smíða vélarhúsið og rétt að byrja á því.  

Upphafði á vélarhúsinu.  28. janúar 2013


Ólafur veltir fyrir sér hvernig þetta eigi að vera.  28. janúar 2013


Gamla stýrið.  28. janúar 2013

14. febrúar 2013
Nú er Ólafur byrjaður að móta vélarhúsið í Kára.  Þá var stýrið sett á Kára en festingarnar voru komnar en festingarnar voru komnar á og þetta var svona rétt svo hægt væri að mynda það.  Stýrið kemur nú vel út.

  
Mótun vélarhússins hafið.  14. febrúar 2013


Vélarhúsið í mótun.  14. febrúar 2013


Stýrið kemur vel út aftan á Kára.  14. febrúar 2013

18. apríl 2013
Kíkti við hjá Ólafi og Kára eftir talsvert langan tíma.  Nú er verið að setja vélina niður, olíutankur og pústkerfi komið, ný skrúfa komin svo eitthvað sé nefnt.  Þá er vélarhlífin að mestu klár.  Næstu verk eru að Ólafur taldi sig eiga eftir um þrjá daga í tréverki og þá færi Kári út á hlað og yrði málaður.  Óhætt að segja að það styttist í þessu hjá Ólafi.  Ætla að reyna að fylgjast með þegar báturinn verður málaður.

Olíutankurinn.  Hafnarfjörður 18. apríl 2013


Pústið á sínum stað.  Hafnarfjörður 18. apríl 2013


Skrúfan komin á sinn stað.  Hafnarfjörður 18. apríl 2013

25. maí 2013
Nú er Kári frá Skáleyjum að verða klár.  Málningarvinnan nánast búin og þá er tréverkið einnig að klárast.  Eitthvað eftir að vinna við vélarhúsið.  Kári verður settur á flot á morgun.
"Málarameistararnir" Egill Teitur og Andrés Eysteinssynir og Hilmar Jónsson sáu um að mála bátinn og mér sýnist þeim hafi tekist mjög vel að höndla verkið líkt og Ólafur með tréverkið allt saman.  
Kári er að verða glæsilegur á að líta og ætla ég að fylgjast með því þegar hann verður settur á flot á morgun og mynda það.  Nokkrar myndir hér og svo eru fleiri í albúmi, smellið á myndina hér að neðan.


Kári glæsilegur, Hafnarfjörður 25. maí 2013


"Góður að aftan", Hafnarfjörður 25. maí 2013


Kári glæsilegur, Hafnarfjörður 25. maí 2013


Gamla handdælan komin á sinn stað, Hafnarfjörður 25. maí 2013

26. maí 2013
Kári fór á flot í dag og voru teknar nokkrar myndir við það tækifæri.  Set slatta af þeim inn í albúm og ef þið smellið á myndina hér fyrir neðan þá opnast myndamappan.  Kári er orðin mjög flottur og tekur sig mjög vel út á sjónum.  Nú getiði farið yfir alla söguna frá því ég fór að fylgjast með þar til Kári var sjósettur í dag.  Sjón er sögu ríkari.

Kári á siglingu, skipstjóri Ólafur Gíslason, Hafnarfjörður 26. maí 2013

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Tenglar

Flettingar í dag: 80
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 262
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 3153400
Samtals gestir: 237042
Tölur uppfærðar: 27.5.2020 05:22:50