Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

02.07.2012 23:50

Oddur BA 12

Oddur BA 12

Báturinn er smíðaður af Aðalsteini Aðalsteinsson skipasmið í Hvallátrum árið 1954.  Aðalsteinn smíðaði skrokkinn fyrir þá Gest Gíslason og Jón Guðmundsson sem byggðu yfir bátinn og innréttuðu hann.  Oddur var frambyggður súðbyrðingur.  Á bilinu 4-7 tonn að stærð, frásögnum ber ekki saman.  16 ha Lister vél.


Oddur BA 12, mynd frá Hafliða Aðalsteinssyni.  Myndin er tekin við klöppina við Nýjuvararbryggjuna og sést í Bryggjuskerið og í Hafnarhólmann aftan við bátinn.


Oddur var sjósettur í lok maí eða byrjun júní 1954 en samkvæmt frásögn Hallbjarnar Bergmann úr Bentshúsi í Flatey þá yfirgaf hann Flatey í maí-júní 1954 en þá var verið að innrétta Odd við frystihúsið í Flatey.  Oddur fórst 25. júní 1954 með áhöfn og farþegum, alls fimm manns.


Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk varðandi þetta sjóslys þá hófst þetta á því að vélin í flóabátnum Konráð bilaði.  Þá var Oddur BA 12 fenginn til að koma í staðinn fyrir Konráð.  Oddur var um 4-5 tonn að stærð, annar segir 6-7 tonn, frambyggður.


Varðandi smíðina á bátnum þá var hann með þetta Látraútlit og því líklega smíðaður af Aðalsteini í Hvallátrum.  Eins og fram kemur hér að ofan þá smíðaði Aðalsteinn skrokkinn en eigendur bátsins, Gestur Gíslason og Jón Guðmundsson byggðu yfir bátinn og innréttuðu.


Oddur BA 12 við Litlanes.  Mynd: Ólína J. Jónsdóttir Flatey


Áhöfn Odds í þessari för voru Gestur Gíslason formaður og Lárus Jakobsson háseti báðir úr Flatey.  Þrír farþegar voru um borð, Óskar Arinbjörnsson frá Eyri var á heimleið eftir að langvarandi veikindi en hann hafði verið til lækninga í Reykjavík og mæðgurnar frá Selskerjum, Guðrún Einarsdóttir á fimmtugsaldri og dóttir hennar Hrefna Guðmundsdóttir 25 ára.  Talsverður farangur var með í för m.a. sement og kox til brennslu en það stóð á dekkinu aftantil.


Það er lagt af stað rétt fyrir hádegi, föstudaginn 25. Júní 1954 úr Flatey og er förinni heitð að Svínanesi í Múlasveit, Barðastrandarsýslu.  Þegar báturinn kemur innfyrir Hvallátur þá lenda þeir í austan kalda, það er aðfall.  Farþegarnir eru líklega í lúkarnum og áhöfnin í stýrishúsinu.  Kunnugir vilja meina að í þessu austan kalda hafi báturinn farið að dýfa skutnum í og smám saman hafi skuturinn fyllst af sjó og báturinn svo farið niður að aftan.  Talsverður farangur hafi verið um borð m.a. sement og kox til brennslu.

Önnur frásögn í sama dúr er á þann veg að bátsverjar hefðu ekki gætt að því hvað pusaði inná hann að aftan vegna ágjafar og þar hafi koxið og sementið verið og drukkið í sig rakann og gert bátinn smátt og smátt þyngri að aftan og á endanum hafi hann farið að súpa á að aftan, svo hafi ekki þurft nema einn straumhnút til að enda þetta mjög snöggt.

Hér að neðan er grein sem ég fann um þetta slys.

Vísir 28. Júní 1954

Fimm manns fórust með vélbáti á Breiðafirði s.l. föstudag.

Vb. "Oddur" á leið úr Flatey í

Múlasveit sökk með fimm manns.

Átakanlegt slys varð á Breiðafirði s.I. föstudag, er vélbátur fórst með fimm manns, sem á honum voru.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem Vísir hefur aflað sér um þenna válega atburð, í símtali við Flatey á Breiðafirði, en þaðan var báturinn, síra Lárus Halldórsson sóknarprest, og skrifstofu Slysavarnafélagsins, lagði vélbáturinn Oddur, BA12, af stað úr Flatey um kl. 11 f.h. s.l. föstudag, og var ferðinni heitið að Svínanesi í Múlásveit í Barðastrandarsýslu.

Á bátnum voru fimm manns: Tveir skipverjar, þeir Gestur Gíslason, formaður, hálffimmtugur, og Lárus Jakobsson, um þrítugt, báðir úr Flatey. Farþegar voru þrír: Óskar Arinbjarnarson hreppstjóri frá Eyri í KolIafirði í Gufudalssveit, maður um sextugt, sem verið hafði til lækninga í Reykjavík, en var nú á heimleið. Guðrún Einarsdóttir, á fimtugsaldri og Hrefna Guðmundsdóttir, dóttir hennar,25-26 ára, frá Selskerjum í Múlasveit.

Frá Flatey til Svínaness er talin um tveggja stunda sigling, en báturinn kom aldrei fram.  Síðast sást til hans úr Hvallátrum, um það bil klukkustund eftir brottförina frá Flatey.  Stinningskaldi var á norðan, er báturinn lagði af stað úr Flatey, og gekk á með hryðjum.  Þó var veður ekki talið háskasamlegt.  Síðan spurðist ekkert til bátsins, og þegar hann kom ekki aftur til Flateyjar, eins og ráð hafði verið fyrir gert, var farið að leita hans. í Skáleyjum fannst ýmislegt úr bátnum, svo sem vörur, er hann hafði haft innaborðs, árar og fleira lauslegt, og þótti því sýnt, hver afdrif hans höfðu orðið.


"Oddur" var  yfirbyggður trillubátur, um 4% lest að stærð nýsmíðaður í Hvallátrum. Að þessu sinni var hann að fara í áætlunarferð í stað Flóabátsins.

Gestur Gíslason, formaður á "Oddi",var ekkjumaður, en lætur eftir sig 3 börn ung. Lárus Jakobsson var ókvæntur, en bjó hjá aldraðri móður sinni og bróður á Flatey. Guðrún Einarsdóttir lætur eftir sig mann og dóttur. Um heimilisaðstæður Óskars Arinbjarnarsonar er Vísi ókunnugt. Mikill mannskaði er að fólki þessu, sem állt var vel látið, og hefur atburður þessi að vonum vakið söknuð og hryggð í byggðarlagi þess.

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Tenglar

Flettingar í dag: 187
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 253
Gestir í gær: 48
Samtals flettingar: 2889940
Samtals gestir: 219757
Tölur uppfærðar: 23.7.2019 12:50:04