Ljósmyndasíða Rikka

Fuglar, gamlir bátar, mannlíf, íslensk náttúra eins og ég sé hana

14.08.2009 13:40

Garðar BA 64, öll sagan

60.  Garðar BA 64 í Skápadal.  Skápadalur er lítill dalur, girtur hömrum og var þar býli með sama nafni en er nú í eyði en þar stendur nú sumarbústaður.



Ég fékk áhuga á að safna saman upplýsingum um Garðar BA 64 eftir að ég tók myndir af honum í Skápadal í botni Patreksfjarðar.  Eftir að hafa lesið upplýsingar við líkan af Garðari BA í Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti sem skráðar voru 1995 fannst mér vanta einhverjar upplýsingar um skipið svo ég hóf eftirgrenslan.  Veraldarvefurinn geymir miklar upplýsingar og þar rakst ég á upplýsingar frá Óskari Franz og hafði ég samband við hann og fékk upplýsingar frá honum sem komu mér vel af stað.  Þá hafði ég rætt við Jón Magnússon eiganda Garðars BA og fengið frá honum nokkra punkta.  Að endingu fann ég grein úr lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 31. Maí 2003 - Saga níræðs öldungs - sem fyllti upp í það sem mig vantaði.

Eftir þessa eftirgrenslan er ég nokkuð sáttur með útkomuna og hér kemur þá saga Garðars BA 64 í stuttu máli en þið getið síðan lesið greinina úr lesbók Mbl með því að smella á linkinn í heimildaskránni.  




                Garðar BA 64 - Elsta stálskip á Íslandi

1912    Nýsmíði, nafn Norröna I.  Smíðaður sem hvalbátur, afhentur í mars 1912, smíði nr. 332 hjá Aker Mek. Veksted A/S í Osló, hlaut nafnið Norröna I.  Eigandi:  Norröna Hvalfanger A/S í Sandefjord (Peder Bogen), heimahöfn var Larvik.  152 brt, 56 nrt.  Rúmlega 30 metra langur, yfir 6 metra breiður og risti tæplega 3,5 metra.  Var tvímastraður og seglbúinn, en með gufuvél til að nota í lognviðri.    Vél:  1 x damp stempelmaskin, triple exp., 3 sylindret, syl.diam.: 12"-20"-33", slag/stroke: 24", 84 NHK. Bygget ved Akers mek.Verksted, Kristiania (Oslo)  Hraði:  11 hnútar.  Kjele(r) (boiler):  1 stk dampkjel, dim: 11,5'x11,0', m/2 fyrganger. Heteflate: 1.535 kv.ft, damptrykk: 200 PSI. Bygget av Akers mek.Verksted, Kristiania (Oslo)

1921    Seldur.  Seldur til A/S Sandefjord Hvalfangerselskap (Peder Bogen), Sandefjord.

1926    Seldur til Larvíkur, nýtt nafn Globe IV.  Seldur til Globus A/S Larvik, omdøpt GLOBE IV.

1936    Seldur til Þórshafnar í Færeyjum. 
Seldur til Hvalveiðifélagsins Áir í Þórshöfn í Færeyjum og hlaut þar nafnið Falkur. Þar var hann notaður aðallega til að draga hval, fremur en að veiða hann.  Stutta tíð var hann í eigu Guðmundar Ísfeldts sem gerði hann út á hval og til vöruflutninga.

1945    Seldur til Siglufjarðar, breytt í fiskibát, nýtt nafn Siglunes SI-89.  Kaupandi Siglunes hf. Siglufirði, eigendur þess voru  Áki og Jakob Jakobssynir.  Þeir létu strax gera stórviðgerð á bátnum.  Breytingarnar fóru fram í Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði og vélsmiðjunni Kletti.  Allt var tekið úr honum, gufuvélin, brúin, kolaboxið, tankarnir, lúkarinn, skrúfan, öxullinn.  Lunningar vogu hækkkaðar, nýr keis, ný brú, bátapallur settur á hann o.fl.

1945    Ný vél sett í bátinn.  Þá var sett í bátinn 378 ha (375 hk). Ruston Hornsby díeselvél, var hún snarvend, 7 strokka, 4 takta og loftræst.  Sett voru 6 tonn af steypu í kjölinn vegna þyngdarmunar gufuvélarinnar og díeselvélarinnar.

1952    Seldur til Skeggja hf. í Reykjavík, nýtt nafn Sigurður Pétur RE-186.  21. Október 1952 var báturinn seldur til Reykjavíkur og var þá nefnt Sigurður Pétur RE-186, kaupandi Skeggi hf. eigandi Jón Sigurðsson.  Þá var sett í hann nýtt stýri en það gamla var keðjudrifið og erfitt í meðförum.  Gerður út á síld-, línu- og netaveiðar.

1958    Miklar skemmdir.  Sigurður Pétur RE-186 skemmdist mikið í aftakaveðri en honum hafði verið lagt milli tveggja stærri báta.  Skipta þurfti um 28 plötur í byrðingnum.
Stutta stund var hann svo í eigu Einars Sigurðssonar í Vestmannaeyjum.

1961    Seldur til Siglufjarðar, nýtt nafn Hringsjá SI-94. 14. Júlí 1961 var báturinn seldur til Siglufjarðar á ný.  Kaupandi Skeggi hf. á Siglufirði.  Nafni þess var breytt og hét þá Hringsjá SI-94.  Skipstjóri Páll Pálsson.

1963    Seldur til Skeggja hf. í Garðarhreppi, nýtt nafn Garðar GK-175.  Tveimur árum síðar var báturinn enn selur og nú til Skeggja hf. í Garðarhreppi eigandi Þórarinn Sigurðsson og þá var honum gefið nafnið Garðar GK-175.

1964    Vélaskipti.  Sett er í Garðar 495 hestafla 750 snúninga Lister-díselvél.

1967    Seldur til Reykjavíkur.  Halldór Snorrason í Reykjavík keypti Garðar 28. Desember 1967.  Hann hélt nafninu, en einkennisstafirnir urðu RE-9.  Garðar RE-9  Garðar var endurmældur og mældist þá 158 brúttólestir.

1974    Seldur til Patrekur hf.  Íslandi.  Jón Magnússon á Patreksfirði keypti Garðar 20. Nóvember 1974 og eftir það hét báturinn Garðar BA-64.  Fór í smá klössun og var settur á flot 1975.

1981    Afskráður.  Garðar var tekinn af skrá 1. Desember 1981.  Honum var siglt upp í botn Patreksfjarðar, n.t.t. Skápadal í desember 1981 þar sem hann stendur ennþá.  Jón keyrði ljósavél bátsins allt til 1991 yfir hátíðarnar og hafði ljósaseríu á Garðari.  Ferðamenn sem hafa átt leið um hafa á síðustu árum gerst frekar fingralangir og stolið öllu sem þeir hafa komið höndum á m.a. stýrishjólinu.



Heimildir:

Óskar Franz Óskarsson, veitti mér miklar og góðar upplýsingar sem komu mér vel af stað.  Hér er slóð á heimasíðu hans.  http://franz.123.is/

Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti, upplýsingar skráði Óskar Jakob Helgason 1995.

Morgunblaðið:  http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=734181

Málsháttur dagsins

Svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður !
clockhere

Rikki R

Nafn:

Ríkarður Ríkarðsson

Farsími:

862 0591

Afmælisdagur:

24. september

Heimilisfang:

Breiðvangi 3, 220 Hafnarfjörður

Staðsetning:

Hafnarfjörður

Heimasími:

565 5191

Um:

Fæddur á Húsavík á því herrans ári 1961 og hef tekið ljósmyndir frá því ég var strákur. Aðaláhugamálið er að taka myndir af fuglum en þó mynda ég allt sem mig langar til að mynda eins og sjá má.

Eldra efni

Tenglar

Flettingar í dag: 144
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 1021
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 311549
Samtals gestir: 29917
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 03:32:01